• Engan má svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum

  • Lögmaður skal vera óháður í starfi og standa vörð um sjálfstæði lögmannastéttarinnar

  • Lögmaður skal ætíð gefa skjólstæðingi hlutlægt álit á málum hans

  • Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu

Þjónusta við einstaklinga

Lögmenn Lögfræðistofu Reykjavíkur hafa það markmið að tryggja viðskiptavinum sínum trausta og áreiðanlega lögmannsþjónustu. Áhersla er lögð á persónulega þjónustu og fullan trúnað við viðskiptavini. Innan vébanda LR eru sérfræðingar á helstu sviðum lögfræðinnar en styrkur stofunnar felst ekki síst í þverfaglegri þekkingu lögmanna hennar sem nýtist við alla almenna hagsmunagæslu sem og ef til málarekstrar fyrir dómstólum kemur. Lögmenn stofunnar hafa áratugalanga starfsreynslu af ágreiningsmálum og álitaefnum sem reynt getur á í viðskiptum og samskiptum manna á milli. Lögfræðistofa Reykjavíkur er því vel í stakk búin til þess að sinna af kostgæfni öllum þeim fjölbreyttu lagalegu viðfangsefnum sem sinna þarf í nútímaþjóðfélagi.

Stjórnsýslu- og réttarvörslusvið.
Verkefni stjórnvalda eru víðfeðm og varða oftar en ekki hagsmuni einstaklinga. Stjórnvöld þurfa að huga að mörgu þegar ákvarðanir um réttindi eða skyldur einstaklinga eða lögaðila eru teknar og þurfa að gæta að viðamiklu regluverki stjórnsýsluréttarins sem bindur þau við töku slíkra ákvarðana. Þær reglur eru einkum settar til að tryggja rétt einstaklinga og lögaðila sem aðila að slíkum málum. Mikilvægt er að gætt sé að þeim rétti í hvívetna. Lögmenn Lögfræðistofu Reykjavíkur hafa mikla og víðtæka reynslu af þeim málaflokkum sem koma til úrlausnar hjá stjórnvöldum, hvort sem er innan stjórnsýslu ríkis eða sveitarfélaga. Þjónusta stofunnar felst í öllu því sem við kemur rekstri stjórnsýslumáls. Sem dæmi má nefna ráðgjöf og þjónustu í samskiptum við stjórnvöld, aðstoð við kvartanir til Umboðsmanns Alþingis og hagsmunagæslu í ágreiningsmálum jafnt á vettvangi stjórnvalda sem dómstóla. Þá hafa lögmenn LR langa reynslu af verjendastörfum bæði á rannsóknar- og dómstigi. Þekking lögmanns á öllum réttindum sakbornings, þegar sakamál er til meðferðar hjá lögreglu eða dómstólum, er nauðsynleg til þess leitast megi við að tryggja að sakborningur hljóti réttláta málsmeðferð.
 
Sifja- og skiptaréttur.
Fjölskyldan og réttindi sem tengjast fjölskyldulífi, er meðal þess mikilvægasta í lífi flestra. Álitaefni um réttarstöðu einstaklinga geta vaknað í kjölfar dauðsfalla, skilnaðar eða slita á sambúð. Mikilvægt er að þeir sem bjóða fram þjónustu til að leysa úr slíkum persónulegum og oft viðkvæmum málum hafi trúnað og virðingu að leiðarljósi. Lögmenn Lögfræðistofu Reykjavíkur hafa áratugalanga reynslu af hagsmunagæslu fyrir einstaklinga á sviði sifjaréttar við meðferð mála hjá sýslumanni eða fyrir dómstólum. Auk þess hafa lögmenn stofunnar víðtæka reynslu af allri skjalagerð á sviði sifjaréttar, svo sem gerð erfðaskráa, sambúðarsamninga og kaupmála, sem komið geta í veg fyrir ágreining þegar og ef á reynir. Einnig hafa lögmenn stofunnar víðtæka reynslu af því að aðstoða vegna fjárskipta og veita annars konar lagalega ráðgjöf í kjölfar skilnaðar eða sambúðarslita, hvort sem er vegna fjárhagsmálefna eða atriða sem varða forsjá og umgengni. Þá veita lögmenn stofunnar ábyggilega þjónustu við uppgjör dánarbúa, bæði við einkaskipti og opinber skipti.
 
Samninga- og kröfuréttur.
Flest öll lögskipti byggjast á samningum milli aðila. Um getur verið að ræða kaupsamninga, leigusamninga, vinnu- og starfsmannasamninga, samninga á sviði sifja- og erfðaréttar eða samninga um hvað það annað sem mönnum er frjálst að semja um sín á milli. Mikilvægt er að vandað sé til verka strax við upphaf samskipta og við samningsgerð. Vönduð vinnubrögð koma oftar en ekki í veg fyrir að vandamál eða álitaefni komi upp þegar reynir á samning. Mikil áhersla er lögð á samningsgerð og samningarétt hjá Lögfræðistofu Reykjavíkur. Lögmenn stofunnar hafa víðtæka þekkingu á sviði samningaréttar og veita faglega þjónustu í tengslum við samninga, bæði við gerð samnings og aðstoð við að útkljá samningaréttarleg álitaefni, hvort sem er milli aðila eða fyrir dómstólum. Til jafns við samningsgerð og samningarétt, veita lögmenn stofunnar trausta þjónustu á sviði kröfuréttar um allt varðandi efndir samninga og gæta hagsmuna samningsaðila vegna lögvarinna réttinda þeirra sem leiða af kröfu samkvæmt samningi.